Fara í efni

Framhaldsnám EMT Advanced

Framhaldsnámi sjúkraflutningamanna er skipt í 4 lotur og lýkur hverjum hluta með prófi. Taka verður Loturnar í réttri röð en miðað er við að þeim sé lokið innan 3 ára frá því að nám hefst. Nemendur þurfa að taka bóklegt og verklegt inntökupróf til að geta hafið námið. Auk þess fer fram lokafærnimat eftir Lotu 4 og verður nemendur að standast það auk prófa úr öllum lotunum. Til að ljúka framhaldsnámi verða nemendur jafnframt að ljúka ILS og EPILS (sérhæfð endurlífgun fullorðina og barna 1) námskeiðum frá Evrópska Endurlífgunarráðinu. Enn fremur er starfsþjálfun tengd hverri lotu og þarf að skila fullnægjandi starfsþjálfunarskrá. Starfsþjálfun fer fram á sjúkrabílum með bráðatæknum, auk deilda LS-SAK og víðar og þarf að ljúka starfsþjálfun tengd viðkomandi lotu áður en nám er hafið í næstu lotu.

Verkefnistjóri framhaldsnámsins: Sigurjón Valmundsson

Netfang: sva0723@sak.is

Inntökuskilyrði

Að umsækjandi hafi lokið grunn- eða kjarnanámskeiði í sjúkraflutningum með fullnægjandi hætti og staðist bóklegt og verklegt inntökupróf. Krafist er amk. 1 árs starfsreynslu í sjúkraflutningum eða sambærilegt.

Ætlast er til að nemendur ljúki náminu á þremur árum eftir að grunnnámi lýkur. 

Markmið

Að gera nemendur færa um að meta ástand mikið veikra og slasaðra sjúklinga, taka ákvörðun um og beita allri nauðsynlegri og viðeigandi bráðameðferð. Að gera nemendur færa um að leiða teymi sjúkraflutningamanna í bráðatilfellum og geta beitt þeim inngripum sem ætlast er til að námi loknu.

Innihald

Námskeiðið inniheldur bæði bóklega og verklega kennslu. Námskeiðið inniheldur m.a. kynningu á starfi neyðarflutningamanna, líffæra-, lífeðlis- og lyfjafræði. Öndunaraðstoð, lyflæknisfræði s.s. bráða öndunar- og hjartasjúkdóma, sykursýki, ofnæmi, heila- og taugavandamál og kvensjúkdóma. Ennfremur er farið í mismunandi áverka, áverkaferli, blæðingar, lost og bruna. Farið er yfir sérstakar aðstæður s.s. bráðatilfelli tengd meðgöngu og fæðingu, ungbörn, börn og aldraða. Nemendur vinna með þjálfunarskrá undir eftirliti leiðbeinenda í starfsþjálfuninni og skila henni í lok starfsþjálfunar.

Námsmat

Hverri lotu lýkur með prófi, skriflegu og verklegu ásamt mati á vinnubók og þjálfunarskrá nemanda.. Krafist er 75% heildarárangurs í skriflegu prófi, en námsmati í bóklegum hluta er skipt upp í nokkur minni próf auk lokaprófs. Mikilvægt er að nemandinn leitist við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í þjálfunarskránni. Farið er fram á skyldumætingu í fyrirlestra (netáhorf) og verklegar lotur.

Tímalengd
Samtals 410 tímar í heildina (bóklegt, verklegt, ILS, EPILS, starfsþjálfun og lokafærnimat)